*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 10. maí 2018 17:05

Góð undiralda í átt til breytinga

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í komandi borgarstjórnarkosningum, leggur áherslu á mál sem hægt er að leysa á næstu fjórum árum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Mér hefur þótt vera góð undiralda í átt til breytinga,“ segir Eyþór Arnalds sem kom, sá og sigraði í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins í byrjun árs og er því oddviti flokksins í borgarstjórnarkosningunum sem verða eftir rúmar tvær vikur. Skömmu fyrir prófkjörið komst Eyþór í fréttir þegar hann tók sæti í stjórn Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins. Eyþór er þó ekki nýgræðingur í stjórnmálum.

Hann var formaður bæjarráðs Árborgar og horfir til þeirrar reynslu sinnar í aðdraganda kosninganna. „Margir eru auðvitað orðnir þreyttir á að það sé kosið árlega á Íslandi en þeir sem vilja breytingar í borginni eru að átta sig á að þeir hafa eitthvað um það að segja. Það eru nokkur mál sem eru ekki í lagi og fólk finnur það á eigin skinni.“ Eyþór nefnir nokkur atriði í þessum efnum.

„Í fyrsta lagi er það umferðin, hún hefur þyngst á síðustu fjórum árum og ekki gengið að bæta úr henni þrátt fyrir fyrirætlanir. Í öðru lagi hefur húsnæðisverð hækkað of skarpt fyrir almenna kaupendur og leigjendur. Verð er oft helmingi hærra núna en fyrir fjórum árum. Aðalástæðan er sú að Reykjavík vann ekki heimavinnuna og undirbjó ekki svæði til bygginga. Á síðasta ári voru 322 íbúðir byggðar í Reykjavík, sem er minna en í Mosfellsbæ. Þegar höfuðborgin er komin svona aftarlega í röðina þá smitar það út frá sér um allt land. Síðan eru önnur mál eins og það að leikskólarnir skuli ekki vera fullmannaðir árið 2018 og að svifryk skuli vera svona mikið í Reykjavík, sem á að vera hreina borgin með hitaveituna. Síðan er stjórnkerfið svo þungt að fólk fær ekki svör. Þetta eru þau fimm atriði sem við erum helst að horfa á. Því til viðbótar viljum við létta álögur og byrja á eldri borgurum.“

Í kosningaloforðum Sjálfstæðisflokksins segir að það eigi að stytta ferðatíma fólks til og frá vinnu um 20%. Hvernig horfir það við þeim sem hjóla og ganga til og frá vinnu?

„Við getum ekki stytt ferðatíma hjólandi og gangandi umtalsvert en við getum stytt ferðatíma þeirra sem nýta almenningssamgöngur og fjölskyldubílinn. Það sem hefur gerst er að ferðatíminn hefur aukist um fjórðung á kjörtímabilinu. Við viljum hreinlega taka það til baka. Við viljum skýr markmið og setja þau með því að mæla ferðatíma fólks. Fyrsta skrefið í að ná árangri er að hafa mælanleg markmið. Leiðirnar til að stytta ferðatímann eru þekktar. Það þarf að bæta leiðakerfi strætó, fækka flöskuhálsum sem eru sex til átta ljósastýrð gatnamót á höfuðborgarsvæðinu, sem valda bæði slysum og töfum. Það þarf að fara í snjallar lausnir eins og að stýra ljósunum betur og fjölga útskotum fyrir strætó og til lengri tíma laga skipulagsmálin. Við erum öll að keyra í vestur á morgnana og austur síðdegis. Samandregið þá er þetta skynsemispakki en ekki einhverjir dagdraumar,“ segir Eyþór.

„Hin leiðin er að bíða eftir 100 milljarða fjárfestingu í Hringbraut í stokk og Borgarlínu sem kannski kemur og kannski kemur ekki. Það er áhættusamt fyrir borgarbúa, við eigum að fara í það sem við getum klárað á kjörtímabilinu og það er þessi leið.“

Þegar þú talar um að vinna á flöskuhálsum, ertu þá að tala um mislæg gatnamót?

„Miklabraut í stokk eru mjög dýr mislæg gatnamót. Við viljum skoða nettar lausnir sem fara vel með land – stutt göng við Bústaðaveg, Háaleitisbraut eða Grensásveg. Þau kosta einn til einn og hálfan milljarð en ekki tuttugu milljarða. Þetta er eitthvað sem við getum gert með Vegagerðinni á þessu kjörtímabili og erum þannig að lofa einhverju sem við getum framkvæmt, ekki einhverju sem er ekki í okkar valdi.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.