*

þriðjudagur, 18. júní 2019
Innlent 22. september 2018 14:32

Góðærið búið í bili

Formaður SAF segir góðærinu í ferðaþjónustunni lokið í bili þó framtíðarhorfurnar séu bjartar.

Ingvar Haraldsson
Haraldur Guðjónsson

Góðærinu er lokið í bili. En til langs tíma er ekkert nema bjart fram undan. Þetta er tímabundin lægð, segir Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. „Það hefur hægt á vexti greinarinnar. Við rekjum það til skertrar samkeppnishæfni meðal annars vegna sterks gengis krónunnar og hás innlends kostnaðar,” segir Bjarnheiður. 

Það sem af er ári hefur ferðamönnum fjölgað um 3,4% milli ára en vöxturinn á árunum 2014-2017 var yfir 20% á hverju ári. Samhliða því hefur gengi krónunnar styrkst verulega undanfarin ár, en raungengi krónunnar styrktist um 40% á árunum 2013-2017. Nú séu ferðaþjónustufyrirtæki mörg hver að leita leiða til að hagræða og auka samkeppnishæfni. „Það er erfitt því það er mikil óvissa,“ segir Bjarnheiður og nefnir gengi krónunnar og komandi kjarasamninga sem dæmi. „Það eru ýmsar hagræðingaraðgerðir í gangi og einhver fyrirtæki hafa yfirgefið markaðinn,“ segir hún. „Áhuginn á Íslandi, til dæmis í Mið-Evrópu er til staðar, en verðið er bara of hátt í augnablikinu.“ 

Evrópubúarnir dvalið lengst 

Samsetning ferðamannahópsins hefur breyst á undanförnum árum. „Það hefur orðið sprenging í fjölda Bandaríkjanna til landsins. það má að hluta til rekja til stóraukins framboðs á flugi frá Bandaríkjunum. Á móti hefur ferðamönnum frá Evrópu fækkað,“ bendir Bjarnheiður á.  Bandarískum ferðamönnum fjölgaði um 27% yfir sumarmánuðina júní, júlí og ágúst, eða 61 þúsund. Á móti fækkaði íbúum frá Mið-Evrópu, Norðurlöndum og Bretlandseyjum um 13% til 19% eða samtals um 53 þúsund manns, en heildarfjöldi ferðamanna í sumar nam 789 þúsund. „Hegðun þessara hópa er gjörólík. Mið-Evrópubúarnir eru þeir sem hafa ferðast mest um landið og dvalið hér lengst. Þetta hefur bitnað dálítið harkalega á ferðaþjónustufyrirtækjum á landsbyggðinni sem er áhyggjuefni,“ segir Bjarnheiður. 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is