Þrátt fyrir að einkaneysla hafi aldrei verið meiri hér á landi, og drífi hagvöxt áfram í sífellt meira mæli er þessi uppsveifla töluvert ólík fyrri uppsveiflum. Íslendingar hafa ekki fjármagnað aukna neyslu með lánum heldur greitt niður skuldir.

„Skuldsetning er miklu minni. Sem hlutfall af landsframleiðslu hafa skuldir heimilanna verið að lækka,“ segir Ásgeir Jónsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands.

Skuldir heimilanna sem hlutfall af landsframleiðslu hafa farið lækkandi frá árinu 2009. Hlutfallið fór hækkandi í upphafi aldarinnar úr 90% 2003 og hæst í 124% árið 2009. Skuldir heimilanna á síðasta ári voru að meðaltali um 76% af landsframleiðslu. Ástæðuna fyrir þessu segir Ásgeir fyrst og fremst vera þá að tekjur heimila hafi vaxið hraðar en einkaneysla.

Sé litið á einkaneyslu sem hlutfall af ráðstöfunartekjum fór hlutfallið lækkandi frá 2010 til 2016. Þetta er vísbending um að Íslendingar hafi fremur varið auknum tekjum í að spara og greiða niður skuldir en í aukna neyslu. Að því leyti er uppsveiflan töluvert ólík uppsveiflunni í lok 10. áratugarins og árunum fyrir bankahrunið 2008.

„Alveg frá því að byrjað að liðka til á fjármálamarkaði upp úr 1980, hafa nær allar uppsveiflur á Íslandi einkennst af mikilli skuldaaukningu heimilanna,“ segir Ásgeir.

Í síðustu tveimur uppsveiflum sem lauk 2001 og 2008 var umtalsverður viðskiptahalli hér á landi. Ásgeir segir að aukinn sparnaður heimila sé stór hluti af ástæðunni fyrir því hve mikill viðskiptaafgangur hafi verið á Íslandi undanfarin ár.

„Það er ekki bara það að við séum að fá meiri útflutningstekjur af ferðaþjónustu, heldur er almennur sparnaður mun meiri en áður sem leiðir til þess að innflutningur verður minni.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .