Lítillega dró úr verðbólgu á milli mánaða í Kína í október. Verðbólga fór úr 1,9% í september í 1,7% á ársgrundvelli. Erlendir fjármálaskýrendur segja þetta jákvæðar fréttir fyrir kínverska hagkerfið en óttast hefur verið að kólnun þess samfellt í sjö mánuði eftir ofhita og spennu geti haft neikvæðar afleiðingar á heimshagkerfið.

Bandaríska dagblaðið Los Angeles Times hefur eftir Alister Thornton, sérfræðingi hjá greiningarfyrirtækinu IHS Global Insight, að kínverska hagkerfið sé að ná stöðugleika. Þá segir hann aðgerðir stjórnvalda til að örva efnahagslífið, svo sem með fjárfestingum í innviðum og beinni lausafjárinnspýtingu, vera að skila sér.