Lækkanir í flestum helstu kauphöllum heimsins eru taldar eiga sér rætur í tveimur aðskildum fréttum sem bárust í dag. Annars vegar nýrri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þar sem gert er ráð fyrir minni hagvexti í Kína en í eldri spám og hins vegar fréttum af því að bandaríski fasteignamarkaðurinn sé að taka við sér á ný.

Undir venjulegum kringumstæðum ættu síðarnefndu fréttirnar að vera tilefni til bjartsýni, en aðstæður nú eru langt frá því að vera venjulegar. Samkvæmt frétt Financial Times óttast fjárfestar að batnandi efnahagsumhverfi í Bandaríkjunum muni leiða til þess að bandaríski seðlabankinn dragi úr efnahagslegum örvunaraðgerðum.

Breska FTSE vísitalan hefur lækkað um 1,68% það sem af er degi, þýska DAX vísitalan hefur lækkað um 1,35% og franska CAC hefur lækkað um 1,41%.

Lækkanir hafa einnig orðið á íslenska hlutabréfamarkaðnum, þótt fara eigi varlega í að draga ályktanir um að sömu ástæður séu fyrir þeim og lækkununum erlendis. Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 0,52% það sem af er degi. Bréf TM hafa lækkað um 0,95%, bréf Haga um 0,87% og bréf Eimskips um 0,78%. Aðeins tvö félög hafa haldið markaðsvirði sínu í dag, Fjarskipti og Össur, en þau hafa þó ekki lækkað.