Mikið hefur verið talað um að eftirspurn eftir leiguhúsnæði á íbúðamarkaði sé meiri en framboðið og því sé leiguverð mjög hátt. Að sögn Garðars á þetta ekki við um atvinnuhúsnæðismarkaðinn. „Það er algjörlega þveröfugt. Það er í raun ekki komið að því að það sé hægt að fara að byggja. Í skýrslum sem voru gerðar fyrir nokkrum árum kom fram að 140-150 þúsund fermetrar væru lausir í atvinnuhúsnæði. Þetta er reyndar komið vel undir 100 þúsund fermetra núna. Ég myndi áætla að þegar þetta verður komið undir 40-50 þúsund fermetra þá verður farið að þrengja um valkosti þegar þig vantar einhverja ákveðna tegundskrifstofu,“ segir Garðar og bætir við að þótt framkvæmdir séu í gangi, þá leggi fáir í að kaupa lóð og byggja frá grunni.

„Þegar byggt verður atvinnuhúsnæði frá grunni á höfuðborgarsvæðinu, þá er markaðurinn að taka við sér. Best er að lýsa fasteignamarkaðinum eins og sírópi, þú hellir og það lekur mjög hægt. Það eru ekki snöggar og stórar sveiflur í þessu. Góðir hlutir gerast hægt, en þeir gerast. Það sem er laust og er ekki í útleigu, það fer, en það kemur að því að við þurfum að fara að byggja. Ég ætla að giska á að það verði eitt til tvö ár í það, ef ekki fyrr. Það fer að þrengjast um það húsnæði sem er í boði.“

Að sögn Garðars er engin þensla á fasteignamarkaðnum með atvinnuhúsnæði. „Við erum langt frá því og við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þenslu okkar megin, hvorki á leiguverði né byggingum. Við erum ekki komin þangað sem við vorum fyrir hrun. Ætli leiguverð sé ekki 30-40% lægra að raunvirði nú en það var þegar það var hæst fyrir hrun,“ segir Garðar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.