Mikill vöxtur hefur átt sér stað hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Godo í ár, en fyrirtækið sérhæfir sig í hugbúnaðarlausnum fyrir ferðaþjónustufyrirtæki. Fyrirtækið hefur nýlega ráðið til sín fimm starfsmenn sem munu eingöngu vinna að frekari vexti Travia, markaðstorgi fyrir ferðaskrifstofur.

Markaðstorgið tengir ferðaskrifstofur beint við framboð hótela og gerir þeim þannig kleift að sækja verð og bóka beint inn í hótelbókunarkerfi. Travia er fimmta stærsta sölurás ferðaþjónustunnar á Íslandi í ár og fyrirtækið gerir ráð fyrir miklum vexti í fjölda bókana á komandi ári.

„Það eru í raun stórkostlegar fréttir hversu vel Travia gengur á Íslandi enda er rásin þannig uppbyggð að engar þóknanir fara úr landi sem eru góðar fréttir fyrir íslenskt hagkerfi,“ segir í fréttatilkynningu Godo.

Sjá einnig: Travia veiti bókunarrisunum samkeppni

Með þessum liðsauka hefur Godo alls bætt við sig ellefu nýjum starfsmönnum á Íslandi á undanförnum sex mánuðum. Í dag starfa því 60 manns hjá fyrirtækinu, þar af um þrjátíu á Íslandi.

Umræddir fimm starfsmenn sem voru nýverið ráðnir til Godo til að vinna við Travia eru eftirfarandi:

David Andrew Laski hefur áralanga reynslu af fjármálastýringu hótela bæði hérlendis og erlendis ásamt því að eiga langa sögu úr fjármálaumhverfi New York borgar.

Hanna Magnúsdóttir er reynslubolti úr heimi ferðaþjónustunnar en hún starfaði undanfarin 20 ár í ólíkum deildum hjá Icelandair, Vita ferðum og Heimsferðum.

Freyja Baldursdóttir kemur sömuleiðis inn með reynslu úr ferðaþjónustunni en hún starfaði áður sem sölustjóri hjá Arctic Nature Hotel.

Jón Rúnar Jónsson er markaðsfræðingur að mennt og reynslubolti þegar kemur að íbúðaleigumarkaði Íslands. Hann starfaði áður hjá bæði Heimaleigu og Greenkey.

Tómas Guðmundsson er viðskiptafræðingur að mennt sem kemur nýr inn í Travia teymi Godo. Tómas vann áður hjá Brandr markaðsvísitölu Íslands.