Hagnaður Icelandair Group á öðrum fjórðungi ársins nam 18,5 milljónum dala, andvirði um 2,2 milljarða króna, en á sama tímabili í fyrra skilaði félagið 14,3 milljóna dala hagnaði. Hagnaður Icelandair á fyrri helmingi ársins nam hins vegar 201.000 dölum, en var 1,1 milljón dala á fyrri helmingi síðasta árs.

EBITDA hagnaður á öðrum ársfjórðungi nam 42,9 milljónum dala í ár, en var 28,8 milljónir dala á sama tímabili í fyrra og hagnaður fyrir skatta nam 23,3 milljónum dala í ár samanborið við 17,8 milljónir dala í fyrra. Munurinn á ársfjórðungunum er því umtalsverður.

Velta Icelandair á fyrri helmingi ársins jókst úr 392,1 milljón dala í fyrra í 438,6 milljónir dala í ár. Rekstrarkostnaður jókst úr 366,3 milljónum dala í 404 milljónir á sama tíma. EBITDA hagnaður félagsins jókst því úr 25,8 milljónum dala á fyrri helmingi síðasta árs í 34,6 milljónir á sama tímabili í ár.

Afskriftir og virðisrýrnun var hins vegar meiri í ár en í fyrra og rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta var á fyrri helmingi þessa árs 1,8 milljónir dala, en í fyrra var 2,2 milljóna króna rekstrartap fyrir fjármagnsliði og skatta. Fjármagnsliðir voru í ár neikvæðir um 1,4 milljón dala en voru í fyrra jákvæðir um 3,5 milljónir. Fjármagnskostnaður var reyndar ríflega milljón dala minni í ár en á fyrri helmingi síðasta árs, en fjármagnstekjur fóru úr níu milljónum dala á fyrri helmingi síðasta árs í þrjár milljónir á sama tímabili í ár.

Eignir félagsins jukust úr 762,9 milljónum dala í 901,3 milljónir á fyrstu sex mánuðum ársins, skuldir jukust úr 467 milljónum í 616,2 milljónir og eigið fé lækkaði úr 296 milljónum í 285,1 milljón dala. Eiginfjárhlutfall er 32%. Handbært fé frá rekstri á fyrri helmingi þessa árs nam 184,9 milljónum dala, en var 158,4 milljónir á sama tímabili í fyrra.

Í tilkynningu er haft eftir Björgólfi Jóhannssyni, forstjóra Icelandair Group, að afkoma félagsins á öðrum fjórðunig hafi verið góð og hafi batnað milli ára. Millilandaflugstarfsemi gangi vel, en framboð var aukið um 17% á milli ára og fjöldi farþega á öðrum fjórðungi hafi numið um 609.000. Hann minnir á að í upphafi ársins hafi félagið spáð því að EBITDA hagnaður ársins yrði á bilinu 115-120 milljónir dala og að þessi spá hafi síðar verið uppfærð í 122-127 milljónir. Núna geri stjórnendur Icelandair ráð fyrir því að EBITDA hagnaður á árinu verði á bilinu 140-145 milljónir dala.