Rio Tinto hefur fundið einn stærsta demant sem hefur fundist í Kanada. Demanturinn er 187,7 karöt en hann fannst í námu fyrirtækisins um það bil 220 kílómetra sunnan heimskautsbaugsins.

Demanturinn hefur fengið nafnið The Diavik Foxfire, en hann er í lágum gæðaflokki demanta. Forstjóri demantadeildar fyrirtækisins Jean-Marc Lieberherr segist vera hæst ánægður með fundinn. Hann segir einnig að það að finna demant af þessari stærð í erfiðum aðstæðum svona nálægt heimskautabaugnum sé nánast kraftaverk.

Rio Tinto á 60% hlut í demantanámunni sem heitir Diavik, en námugröftur hófst í námunni 2003.