Útgerðarfélagið Stálskip hagnaðist um 738,2 milljónir króna í fyrra og jókst hagnaðurinn um 167 milljónir króna á milli ára. Tekjur félagsins námu 2,3 milljörðum króna samanborið við tæplega 1,9 milljarða árið áður. Félagið greiddi um 185 milljónir króna í skatt árið 2011. Eigið fé félagsins í árslok var um 2,8 milljarðar króna og skuldir félagsins aðeins um 370 milljónir, mest skammtímaskuldir.

Stálskip greiddi eigendum sínum um 114,3 milljónir króna í arð á síðasta ári. Hjónin Ágúst Sigurðsson og Guðrún H. Lárusdóttir eiga saman 40% hlut í félaginu en þá eiga þrjár dætur þeirra 15% hlut hver og bróðir Ágústs 15% hlut. Félagið gerir út eitt skip, Þór HF 4 en meðalfjöldi starfsmann var 30 á árinu.