Útgáfufyrirtækið Alda Music hagnaðist um rúmlega 14 milljónir króna á árinu 2017 en síðasta ár var fyrsta heila rekstrarár félagsins. Fyrirtækið var stofnað á seinni hluta árs 2016 eftir að tónlistarmennirnir Sölvi Blöndal og Ólafur Arnalds ásamt fjórum öðrum fjárfestum tóku yfir tónlistarhluta Senu.

Tekjur félagsins námu 161 milljón króna á síðasta ári og nam rekstrarhagnaður 40 milljónum. Eignir félagsins námu 242 milljónum króna í lok árs 2017 á meðan skuldir námu 70 milljónum króna. Arðsemi eiginfjár á síðasta ári var 15,1%.

Mikil stefnumótun að baki

„Þetta er mjög skemmtilegt dæmi um hvernig bransi getur farið í gegnum miklar umbreytingar og risið á ný í öðru formi,“ segir Sölvi Blöndal, stjórnarformaður Alda Music. Að sögn Sölva hefur mikil vinna verið lögð í að móta stefnu fyrirtækisins. „Árið 2017 fór að miklu leyti í að halda áfram að búa til fyrirtækið, vinna með okkar tónlistarmönnum og treysta undirstöðurnar í okkar rekstri. Við lögðum vinnu og pælingar í það hvernig ætti að búa til tónlistarfyrirtæki á 21. öldinni í þessu nýja stafræna umhverfi. Ég myndi segja að mestur tími hafi farið í að móta stefnuna og þá er ég ekki að tala um eitthvað eins árs plan heldur áætlun til langs tíma,“ segir Sölvi.

„Þetta er að skila sér í okkar starfi og afkomu í dag. Við höfum byggt fyrirtækið upp frá grunni og fengið fjölda góðra og nýrra listamanna til þess að vinna með okkur og samstarfið við eldri listamenn hefur einnig gengið mjög vel. Við erum stærsta tónlistarfyrirtæki á Íslandi í dag. Við auðvitað byggjum á gömlum grunni og það er kannski munurinn á okkur og mörgum öðrum að við sýslum og höfum umsjón með miklum meirihluta af þeirri tónlist sem hefur komið út á Íslandi. Það er á sama tíma ábyrgðarhlutverk okkar að sinna þeim menningarverðmætum vel.

Við höfum haft mikinn fókus á að treysta undirstöðurnar og vinna þá vel með færri nýjum listamönnum heldur en illa með mörgum. Við höfum litið á Öldu Music að mörgu leyti eins og sprotafyrirtæki þar sem við byggjum á gömlum grunni en erum í raun og veru að fóta okkur í algjörlega nýju rekstrarumhverfi þar sem tekjumódelið byggir á allt annars konar sölu en það gerði áður. Það hefur hins vegar gengið vel og í raun umfram væntingar sem er gott fyrir okkur og gott fyrir listamennina sem við erum að vinna með þar sem við erum að fjárfesta heilmikið í nýju „talenti“ og endurútgáfum sem mun skila sér á næstu árum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .