*

föstudagur, 25. september 2020
Innlent 24. janúar 2020 19:14

Góður tími til að kaupa íbúð?

Raunverð fasteigna hækkaði aðeins um 0,9% á milli áranna 2018 og 2019.

Trausti Hafliðason
Una Jónsdóttir, er hagfræðingur á Hagfræðideild Landsbankans.
Aðsend mynd

Fasteignamarkaðurinn virðist vera í jafnvægi sem stendur. Íbúðaverð hefur lítið hækkað, fjöldi kaupsamninga stendur í stað milli ára og fremur litlar breytingar eru á veltutölum. Á milli áranna 2018 og 2019 hækkaði fasteignaverð um 3,5% að nafnvirði samanborið við ríflega 6% á milli áranna 2017 og 2018.

Þessar tölur sýna að töluvert hefur hægt á verðhækkunum því á milli áranna 2016 og 2017 nam hæk kunin 19%. Skýringin á snarpri hækkun á þessum tíma var meðal annars sú að þá var íbúðaskortur — eftirspurnin var meiri en framboðið. Var það vegna þess að lítið hafði verið byggt af íbúðum á höfuðborgarsvæðinu eftir hrun og þá sérstaklega í Reykjavík. Á þessum árum var ferðaþjónustan líka að blása út og fjöldi íbúða fór í leigu til erlendra ferðamanna.

Samfellt skeið raunverðshækkana

Una Jónsdóttir, hagfræðingur á Hagfræðideild Landsbankans, segir að ástandið á fasteignamarkaði sé stöðugt í dag enda hafi raunverð fasteigna aðeins hækkað um 0,9% á milli áranna 2018 og 2019.

„Mér finnst áhugavert hvað við höfum búið við langt samfellt skeið raunverðshækkana á fasteignamarkaði,“ segir Una. „Síðustu níu ár hefur raunverð hækkað á milli ára og höfum við ekki séð jafnlangt tímabil samfelldra hækkana síðan farið var að taka saman þessar tölur árið 1995. Það er líka merkilegt hvað fasteignaverð hefur sveiflast lítið síðustu misseri eins og raunverðshækkunin á milli áranna 2018 og 2019 ber vitni um. Þegar breytingar á raunverði eru jafn litlar og raun ber vitni þá myndi maður almennt halda að það væri gott að kaupa.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út á fimmtudaginn. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.