Gögn Kastljóss á RÚV tengd umfjöllun um útflutning sjávarafurða varð til þess að Seðlabankinn með aðstoð Embættis sérstaks saksóknara og tollstjóraembættisisins gerði húsleit á skrifstofum Samherja í Reykjavík og Akureyri í morgun. Grunur leikur á að fyrirtækið hafi gerst brotlegt gegn ákvæðum laga um gjaldeyrisviðskipti.

Fréttastofa RÚV greinir frá því að starfsmenn Kastljóss hafi borið gögn um málið undir gjaldeyriseftirlit Seðlabankans og leitað viðbragða. Í framhaldi af því hófst rannsóknin. Þá hafi gjaldeyriseftirlit Seðlabankans farið þess á leit við Kastljós að umræddar upplýsingar yrðu ekki opinberaðar fyrr en að lokinni frekari gagnaöflun eftirlitsins vegna rannsóknarhagsmuna. Ákveðið var að verða við þeirri ósk.

Umfjöllunin verður á dagskrá Kastljóss í kvöld.