Íslandsbanki hefur lokið rannsókn sinni á því hvort gögn um verðbréfaviðskipti dómara, sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum, hafi komið frá bankanum. Samkvæmt tilkynningu frá Íslandsbanka, bendir ekkert til þess að umrædd gögn hafi borist fjölmiðlum frá Íslandsbanka eða starfsmönnum hans.

Rannsókn var framkvæmd af innri endurskoðun bankans. Gögnin sem til umfjöllunar hafa verið eru öll gömul og eiga rót að rekja úr starfsemi Glitnis banka hf. fyrir hrun. Gögnin eru háð þagnarskylduákvæði 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Íslandsbanki lítur á málið alvarlegum augum og hyggst óska eftir lögreglurannsókn á því eftir hvaða leiðum gögnin komust í hendur óviðkomandi.