Íslenska tölvuleikjafyrirtækið Gogogic hefur gert samstarfssamning við bandaríska tölvuleikjafyrirtækið FreshGames um gerð og útgáfu leiks fyrir Apple tæki. Hönnun og forritun leiksins er þegar hafin hjá Gogogic og gert er ráð fyrir því að leikurinn komi út í heiminum öllum í sumar. Þetta er fjórði leikurinn sem Gogogic gefur út fyrir Apple tæki. FreshGames er leiðandi framleiðandi og útgefandi á tölvuleikjum og hefur dreift leikjum í milljónatali í gegnum vefsetur eins og Yahoo, MSN, GameHouse og fleiri. „Það sem vakir fyrir okkur í þessu verkefni er að búa til leik fyrir Apple tæki sem nýtir möguleika félagsmiðla eins og til dæmis Facebook. Við munum byggja á tækni sem við höfum þróað hér innanhúss og nýtt í leikjum sem við höfum gert fyrir Apple tæki og Facebook," segir Jónas Björgvin Antonsson, forstjóri Gogogic.

Fyrr í mánuðnum var öllum starfsmönnum Gogogic sagt upp en uppsagnirnar voru fyrst og fremst varúðarráðstafanir. „Verið er að vinna að endurfjármögnun félagsins en vonir standa til að það klárist sem fyrst. Þegar endurfjármögnun klárast verða uppsagnir dregnar til baka," segir Jón Heiðar Þorsteinsson, markaðsstjóri Gogogic.