Tölvuleikjafyrirtækið Gogogic hefur gert dreifingarsamning við bandaríska fyrirtækið Big Fish Games um dreifingu á nýjum leik fyrir iPad og iPhone sem Gogogic er með í framleiðslu og kemur út í sumar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Greint var frá því í gær að öllu starfsfólk Gogogic hefur verið sagt upp störfum. Jónas Björgvin Antonsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, sagði fyrst og fremst um varúðarráðstöfun að ræða og unnið sé að endurfjármögnun.

Í tilkynningunni frá Gogogic í dag segir að Big Fish Games sé einn stærsti dreifingaraðili tölvuleikja í heimi. Leikurinn sem kemur út í sumar er ævintýraleikur þar sem aðalstjarna leiksins þarf að sleppa í gegnum allskyns þrautir og hindranir.

„Big Fish Games dreifir meira en tveimur milljón leikja á dag til spilara um alla heim. Fyrirtækið dreifir leikjum jafnt fyrir PC-tölvur, makka, snjallsíma og töflutölvur. Gogogic hefur áður gefið út þrjá leiki fyrir Apple tæki, Symbol6, Symbol6 Redux og Soft Freak Fiesta.“