Öllum starfsmönnum íslenska tölvuleikjafyrirtækisins Gogogic, sem framleiðir meðal annars Facebook-leikinn Vikings of Thule, hefur verið sagt upp. Alls starfa 27 manns hjá fyrirtækinu. Jónas Björgvin Antonsson, framkvæmdastjóri og einn stærsti eigandi Gogogic, sagði við RÚV að uppsagnirnar séu varúðarráðstöfun og að þær verði dregnar til baka um leið og tækifæri gefst til.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins keypti hlutabréf í Gogogic fyrir 48 milljónir króna árið 2009 og varð við það stærsti einstaki eigandi fyrirtækisins. Frumtak, samlagssjóður í eigu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, sex af stærstu lífeyrissjóðum landsins og þriggja banka, keypti síðan hlut í Gogogic fyrir 150 milljónir króna í lok mars 2010. Á stjórnarfundi 31. mars síðastliðinn var heimild veitt til þess að hækka hlutafé um 5 milljónir króna að nafnvirði. Gogogic tapaði 54,8 milljónum króna á árinu 2009 og 28 milljónum króna árið áður.