Tónlistarveitan Gogoyoko tapaði 24,6 milljónum króna í fyrra, samanborið við 106,2 milljóna króna tap árið 2011. Munar þar mestu um að tekjufærð er niðurfelling lána upp á 79,6 milljónir króna, en án hennar hefði fyrirtækið tapað 104,2 milljónum króna á árinu. Rekstrartap jókst úr 20,9 milljónum króna í 30,1 milljón, en afskriftir minnkuðu úr 70,4 milljónum króna í 54 milljónir.

Þrátt fyrir niðurfellingu lána jukust vaxtagjöld félagsins úr 13,6 milljónum króna í 20,1 milljón á milli ára. Töluverðar sviptingar hafa verið í kringum félagið á þessu ári, en framkvæmdastjórinn, Hreinn Elíasson, hætti störfum hjá fyrirtækinu ásamt fleiri starfsmönnum í apríl og annar stofnandi félagsins, Haukur Davíð Magnússon, tók við. Í kjölfarið óskaði stjórn félagsins eftir því að lögregla rannsakaði hvort starfsmennirnir fyrrverandi hefðu gerst sekir um þjófnað. Starfsmennirnir hafa hafnað þessum ásökunum harðlega.