Tónlistarsíðan gogoyoko.com opnar á morgun, föstudaginn 2. október, fyrir notendum og listamönnum á Norðurlöndum. Hér er íslenska sprotafyrirtækið gogoyoko að taka sitt stærsta skref á alþjóðavettvangi til þessa. Þetta þýðir að þær hundruðir íslenskra listamanna og hljómsveita sem nú eru á gogoyoko.com geta selt tónlist sína í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi segir í tilkynningu.

gogoyoko.com opnar á fleiri svæðum og löndum síðar í ár. Listamenn og notendur utan Norðurlandanna verða því að býða enn um sinn, en geta þó sótt um aðgang að síðunni gegnum gogoyoko.com.

gogoyoko.com er nýtt netsamfélag; tónlistarbúð og tónlistarveita. Á gogoyoko.com geta allir notendur hlustað á tónlist eftir eigin óskum, heilar breiðskífur og lög, með einföldum hætti og án endurgjalds. Þeir geta jafnframt keypt tónlist, þar sem tónlistarmennirnir verðleggja sig sjálfir. Á gogoyoko.com geta tónlistarmenn komið tónlist sinni á framfæri og í sölu á alþjóðavísu, án milliliða, og verið í beinu sambandi við sína áhangendur.

Samhliða því sem gogoyoko.com opnar í Skandinavíu er nýrri útgáfu af síðunni, með ýmsum viðbótum og endurbótum hleypt af stokkunum. Meðal nýjunga er að nú er hægt að beintengja Twitter þjónustuna við notendasíður inn á gogoyoko.com og komin er í gagnið nýr tónlistarspilari, sem gerir notendum enn auðveldara að velja lög og breiðskífur til hlustunar. Allir notendur gogoyoko.com geta hlustað á tónlist, heil lög og breiðskífur, frítt gegnum síðuna og nýji spilarinn gerir öllum kleift að vafra um síðuna og hlusta spilunarlistann sinn hvar sem þeir eru á síðunni.

gogoyoko.com hefur verið í þróun og vinnslu í um tvö ár. Í maí var íslenskum listamönnum hleypt inn á síðuna og um mánuði síðar, þann 9. júlí, var síðan opnuð almenningi á Íslandi. Til þessa hefur síðan verið lokuð öllum utan Íslands, en nú geta listamenn og tónlistarunnendur á Norðurlöndunum notið þess sem síðan hefur upp á að bjóða; hlutað á tónlist frítt, keypt tónlist beint af listamönnum og um leið stutt við góð málefni.