Bandaríski fjárfestingabankinn Goldman Sachs á nú í viðræðum við stjórnvöld í Bandaríkjunum um greiðslu tveggja milljarða dollara sektar auk þess sem fyrirtækið viðurkenni sök sína í 1MDB fjársvikamálinu sem er eitt það stærsta í sögunni. Þetta kemur fram í frétt Wall Street Jorunal .

Goldman og bandarískir embættismenn hafa átt í viðræðum um samning sem felur í sér að dótturfyrirtæki Goldman í Asíu viðkenni að hafa brotið bandarísk lög um mútugreiðslur samkvæmt heimildarmönnum WSJ sem þekkja til málsins. Þá fela viðræðurnar einnig í sér að fjárfestingarbankinn setji á laggirnar sjálfstætt eftirlit sem ætlað er að fylgjast með og leggja fram breytingar á kerfi sem eigi að geta komið í veg fyrir að mál sem þessi komi upp.

Að sögn talskonu Goldman mun fyrirtækið halda áfram að vinna með eftirlistaðilum en sagði jafnframt að það væri óábyrgt að vera með tilgátur um hver útkoman yrði.

Eins og áður segir er 1MDB málið eitt stærsta fjársvikamál sögunnar en 1MDB er fjárfestingarsjóður sem settur var á laggirnar af ríkistjórn Malasíu undir stjórn fyrrum forsætisráðherrans Najib Razak. Maður að nafni Jho Low var hins vegar í aðalhlutverki í fjárdráttargerningum sjóðsins og starfsmanna hans en þá var forsætisráðherrann einnig viðriðin málið. Talið er að um 4,5 milljörðum dollara hafi verið skotið undan á árunum 2009 til 2014. Ýtarlega var fjallað um sögu 1MDB í þætti Veru Illugadóttur, Í ljósi sögunnar á síðasta ári.