Starfsmönnum fjárfestingabankarisans Goldman Sachs í Bandaríkjunum hefur verið skipað að gefa upp hvort þeir hafi verið bólusettir gegn COVID-19 eður ei áður en þeir snúa aftur á skrifstofur bankans. BBC greinir frá.

Í minnisblaði bankans, sem BBC komst yfir, kom fram að starfsmenn þyrftu að hafa gefið upp umræddar upplýsingar fyrir klukkan 17 á staðartíma sl. fimmtudag.

Bankinn hefur mælt sterklega með því að starfsmenn sínir þiggi bólusetningu en í minnisblaðinu kemur þó fram að stjórnendur bankans átti sig á því að ákvörðunin sé persónulegs eðlis.

Vonir standa til um að starfsmenn fjárfestingabankans vestanhafs geti snúið aftur til starfa á skrifstofum bankans næsta mánudag.