Bandaríski bankinn Goldman Sachs tilkynnti í gær að Warren Buffett auk annarra fjárfesta muni kaupa 7,5 milljarða Bandaríkjadala í bankanum.

Er þetta liður í að styrkja eiginfjárgrunn bankans á sama tíma og hann umbreytist úr fjárfestingabanka yfir í viðskiptabanka.

Goldman Sachs hefur gert samkomulag við Berkshire Hathaway, fjárfestingafélag Warren Buffett, um kaup á forgangshlutabréfum að andvirði 5 milljarða Bandaríkjadala auk þess að fjárfestingafélagið hefur heimild til þess að kaupa aðra fimm milljarða til viðbótar.

Einnig mun Goldman bjóða út nýtt hlutafé fyrir 2,5 milljarða dala.

Aðkoma Buffett þykir sæta nokkrum tíðindum mitt í þeirri ólgu sem nú ríkir á fjármálamörkuðum. Lánsfjárkreppan hefur grafið undan trausti fjárfesta á fjármálafyrirtækjum sem að sum hver hafa þurft að róa lífróðri að undanförnu við afla sér fjármagns.

Það að Buffett fjárfesti nú í Goldman Sachs gæti verið túlkað sem tákn um að fjárfestar hafi brugðist of hart við að undanförnu og kauptækifæri hafi myndast í fjármálafyrirtækjum.

Samningurinn er til marks um breyttar áherslur Buffett en að sögn Financial Times hefur hann forðast fjárfestingar í fjármálafyrirtækjum frá því að hann tók þótt í björguninni á fjárfestingabankanum Solomon Brothers fyrir um tuttugu árum. En ljóst er að Buffett bjóðast engin örkjör.

Forgangshlutabréfin munu bera 10% arð og þótt að Goldman geti keypt þau til sín hvenær sem þá myndi 10% álag leggjast ofan á slík viðskipti.

Auk þess felur heimildin til kaupa á öðrum 5 milljörðum af hlutafé í sér að viðskiptin fari fram á genginu 115 dalir á hlut en lokagengi Goldman Sachs á þriðjudag var 125 dalir.

Heimildin gildir til 5 ára.