Olíuverð hefur verið afar sveiflukennt undanfarin ár og er nú með því lægsta frá upphafi. Í fyrra hrundi tunnan af olíu úr 100 dollurum niður í 45, áður en hún tók aftur við sér snemma í sumar og fór upp í 60 dollara. Síðan þá hefur verðið hrunið aftur og kostar tunnan nú aftur u.þ.b. 45 dollara.

Greiningaraðilar hjá fjárfestingarbankanum Goldman Sachs telja að olíuverð muni halda áfram að lækka og búast við því að tunnan gæti fallið niður í allt að 20 dollara. Spámennirnir eru engir aukvisar, en fremstur í þeirra flokki er Jeffrey Currie sem er yfirmaður rannsókna á hrávörum.

Sem stendur býr heimurinn við offramboð á olíu, bæði vegna mikils framboðs og minnkandi eftirspurnar. Vegna þess gæti verðið haldið áfram að falla að sögn sérfræðinganna hjá Goldman.

Þeir segja að nýjustu gögn bendi til þess að offramboðið sé enn meira en búist var við og telja þeir að ástandið muni halda áfram á næsta ári með aukinni framleiðslu OPEC landanna meðal annars. Telja þeir því líklegra með hverjum deginum að olíutunnan falli niður í 20 dollara.

Fjölmörg lönd treysta mikið á olíusölu í landsframleiðslu sinni og gæti slík verðlækkun haft afar slæmar afleiðingar á þeirra efnahag. Þess ber að taka fram að Goldman telur ekki öruggt að tunnan lækki svo mikið, heldur sé um versta tilfellið að ræða.