*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 14. febrúar 2018 09:29

Goldman Sachs bætir við sig í Arion

Meðal kaupenda af 5,34% hlut í Arion banka eru innlendir sjóðir ásamt Attestor Capital og Goldman Sachs.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Tveir erlendir sjóðir sem átt hafa um 13% hlut í Arion banka hafa bætt við sig á sama tíma og innlendir sjóðir keyptu í bankanum eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær. Keyptu erlendur sjóðirnir Trinity Investments, sem er í eigu Attestor Capital, og ELQ Investors, sem er í eigu Goldman Sachs, samtals 2,8% hlut í bankanum, á sama tíma og íslensku aðilarnir keyptu 2,54%.

Í tilkynningu frá Arion banka segir að íslensku kaupendurnir séu fjöldi sjóða í rekstri fjögurra innlendra sjóðstýringarfyrirtækja. Í heildina er um 5,34% hlut sem innlendu og erlendu sjóðirnir hafa keypt af dótturfélagi Kaupþings, Kaupskil ehf.

Ekki kemur fram hvernig skiptingin er milli erlendu sjóðanna, en Attestor Capital átti fyrir 10,44% hlut og Goldman Sachs 2,57% hlut. Eftir viðskiptin mun Kaupþing áfram eiga meirihlutann, eða 52% í Arion banka, í gegnum Kaupskil. Ríkissjóður mun áfram eiga sín 13%.

Hlakkar til samstarfs við nýja eigendur um áframhaldandi sölu

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka segir að með kaupunum séu tveir af núverandi hluthöfum bankans að árétta trú sína á bankanum með því að bæta við sinn hlut.„Það er jákvætt að hluthafahópur Arion banka þróist, verði breiðari og að innlendir aðilar komi inn í hluthafahópinn,“ segir Höskuldur. 

„Þessi fjárfesting sýnir trú á því starfi sem fram hefur farið innan bankans og þeirri uppbyggingu sem átt hefur sér stað. Fjárhagsleg staða bankans er sterk og hann nýtur góðrar stöðu á þeim mörkuðum sem hann starfar.“

Paul Copley, forstjóri Kaupþings segir söluna lið í áframhaldandi viðleitni félagsins til að innleysa eignasafn sitt. „Með þessum viðskiptum koma innlendir sjóðir í eigu fjölmargra Íslendinga inn í hlutahafahóp Arion banka. Ég hlakka til að vinna með þessum aðilum þegar við höldum áfram að selja hlut okkar í Arion banka.“

Fleiri fréttir um málefni Arion banka: