Viðskipta– og kaupþingsnefnd Bandaríkjanna, SEC, sektaði í síðustu viku bandaríska bankann Goldman Sachs fyrir að afvegaleiða viðskiptavini sína. Sektin er sú hæsta sem hefur verið krafist í 76 ára sögu nefndarinnar.

Goldman Sachs þurfa að reiða fram 550 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði tæpra 70 milljarða íslenskra króna. Ef marka má hreyfingu á markaðsverði félagsins þá litu fjárfestar jákvæðum augum á sektina. Hlutabréfaverð bankans hækkaði um 4,6% við fréttirnar.

Á síðustu áratugum hefur Goldman Sachs verið eitt farsælasta félagið á Wall Street og bankinn malað gull. Í eftirleik bankakreppunnar ytra, sem oftar en ekki er rakin til slæmra húsnæðislána, hefur bankinn skarað fram úr hvað varðar hagnað. Hann var sá fyrsti til að greiða til baka upphæðir sem yfirvöld létu bönkunum í té vegna lausafjárkrísu. Hins vegar hefur árið 2010 ekki verið áframhald velgengni, í það minnsta ekki þegar litið er til almenningsálits.

-Nánar í Viðskiptablaðinu