Bandaríski bankinn Goldman Sachs hefur ákveðið að banna starfsmönnum í fjárfestingabankadeild hans að fjárfesta í einstökum hluta- og skuldabréfum. Þeim verður einnig bannað að fjárfesta í ákveðnum tegundum vogunarsjóða, að því er kemur fram í frétt Bloomberg. Nýju reglurnar munu einnig eiga við um ákveðna starfsmenn utan fjárfestingabankadeildarinnar.

Tímasetning reglusetningarinnar er sögð áhugaverð, því í gær fjallaði útvarpsþátturinn This American Life um mál Carmen Segarra, fyrrverandi starfsmanns seðlabankans í New York. Hún vann í eftirlitsdeild bankans og hafði eftirlit með Goldman Sachs. Hún heldur því fram að sér hafi verið sagt upp störfum hjá seðlabankanum árið 2012 því hún vildi ekki breyta skýrslu um Goldman, þar sem hún sagði bankann ekki hafa neinar reglur um hagsmunaárekstra.

Í þættinum sagði Segarra að starfsmenn seðlabankans færu með silkihönskum um fyrirtækin sem þeir eiga að hafa eftirlit með. Sagði hún starfsmenn seðlabankans nánast undirgefna starfsmönnum Goldman. Seðlabankinn hefur hafnað ásökunum Segarra.

Slíkar reglur voru loks settar hjá bankanum árið 2012 og hafa þær nú verið hertar.