*

sunnudagur, 16. febrúar 2020
Erlent 15. apríl 2019 13:06

Goldman Sachs lækkar laun um fimmtung

Launakostnaður og annar rekstrarkostnaður Goldman Sachs var lækkaður um 11% samhliða 21% lækkun hagnaðar.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Samhliða minnkandi hagnaðar fjárfestingarbankans Goldman Sachs hefur félagið lækkað laun um 20% á fyrsta ársfjórðungi ársins. Námu tekjur bankans 8,8 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem samsvarar 1058 milljörðum íslenskra króna á þessu þriggja mánaða tímabili, sem er lækkun um 13% frá sama tíma fyrir ári.

Á sama tíma lækkaði hagnaður bankans um 21% milli ára, eða niður í 2,25 milljarða dala, 270,4 milljarða íslenskra króna. Samt sem áður tókst bankanum að vera með meiri hagnað á hlut en vænst var vegna þess að hann lækkaði rekstrarkostnað um 11%, þar með talið með því að lækka laun og bónusa um 20%.

Ástæða minnkandi hagnaðar er sagt vera vegna erfiðra aðstæðna í rekstri, lægri ávöxtunar hlutabréfa og lægri þóknunargjalda í fjárfestingar- og lánastarfsemi bankans að því er FT greinir frá.

Hlutabréf í Goldman Sachs hafa hækkað um nærri 21% í virði það sem af er ári, sem er meira en helstu keppinautarnir í Morgan Stanley og meira en bankavísitalan KBW US sem bæði hafa hækkað um 16%. Hækkun Citigroup var þó meiri eða um 26% á árinu.

Þegar þetta er skrifað nemur lækkun gengis The Goldman Sachs Group á fyrirmarkaði 1,85%, en fyrir helgi hafði hækkunin numið 2,47%.

Stikkorð: laun Goldman Sachs banki hagnaður tekjur