Bandaríski fjárfestingabankinn Goldman Sachs sagði í dag að hlutabréfaverð á sumum fjármálafyrirtækjum endurspeglaði „óeðlilegar áhyggjur" fjárfesta.

Goldman tiltók sérstaklega í þessu samhengi fjárfestingabankana Morgan Stanley, Lehman Brothers og UBS og sagði að ótti fjárfesta um stöðu fyrirtækjanna væri ekki í samræmi við raunveruleikann.

Eftir að hafa afskrifað eignir fyrir milljarða Bandaríkjadala á síðustu mánuðum, gæti svo farið að bankarnir myndu færa eitthvað af eignunum aftur til bókar á þessu ári ef aðstæður á lánamörkuðum batna, segir Goldman.

Viðhorf Goldman er hins vegar á skjön við mat marga sérfræðinga sem telja að hið versta sé ekki yfirstaðið á fjármálamörkuðum, auk þess sem frekari verðlækkun á húsnæðismarkaði og minnkandi einkaneysla almennings eigi eftir að vega þungt fyrir sjálft raunhagkerfið.