Fjárfestingarbankinn Goldman Sachs hefur birt skýrslu um evrópska bankageirann.

Í skýrslunni er því haldið fram að endurfjármögnunarþörf margra banka hamli því að viðsnúningur verði á mörkuðum.

Frá skýrslunni er meðal annars greint í hálffimm fréttum Kaupþings.

Lækkun evrópskra banka má að stórum hluta rekja til lægri væntrar arðsemi. Tveir þættir til viðbótar eru sagðir valda áhyggjum.

Þeir eru aukin fjármögnunarþörf til þess að uppfylla hærri kröfur markaðarins  um Tier 1 eiginfjárhlutfall (eiginfjárþáttur A). Einnig veldur áhyggjum hættan  á því að niðursveiflan muni vara lengur og verða dýpri en áður hefur verið talið.

Greinarhöfundar Goldman Sachs telja að í versta falli geti þetta tvennt geta unnið saman til frekari lækkana á evrópskum bönkum.

Til þess að evrópski bankageirinn nái Tier 1 hlutfalli upp í 9% er fjármögnunarþörf  kerfisins metin á um 60 milljarða evra á næstu misserum að mati greinarhöfunda.

Þessa fjárhæð geta bankarnir fengið með því að halda eins árs arðgreiðslum, sem spáð er að geti samanlagt numið um 60 milljörðum evra vegna ársins 2008, í stað þess að greiða arðinn út. Ef hins vegar niðursveiflan dregst telja greinarhöfundar að fjármögnunarþörf geti numið allt að 90 milljörðum evra.