Bandaríski fjárfestingabankinn Goldman Sachs hefur byrjað að selja hluta af skuldabréfum ríkisolíufyrirtækis Venesúela sem bankinn keypti fyrir rúmum mánuði síðan. Samkvæmt heimildum Wall Street Journal hefur bankinn selt skuldabréf fyrir að minnsta kosti 300 milljónir dollara að nafnvirði til lítils hóps vogunarsjóða. Ástæða sölunnar mun vera sú að Goldman vill koma á viðskiptum með bréfin til að auka trúverðugleika þeirra og vonast þannig til þess að verð þeirra hækki.

Bankinn keypti í maí síðastliðnum skuldabréf olíufyrirtækisins fyrir 865 milljónir dollara en nafnvirði bréfanna nam 2,8 milljörðum dollara. Goldman greiddi því aðeins 31 sent fyrir hvern dollara.

Kaupin þóttu mjög umdeild og sakaði Julio Borges leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Venesúela Goldman um að bankinn hefði ákveðið að ná skjótfengnum gróða á þjáningum íbúa Venesúela. Svaraði Goldman því til að þeir hafi keypt bréfin þar sem þeir vonast til þess að ástandið í Venesúela batni.