Bandaríski fjárfestingarbankinn Goldman Sachs tapaði 393 milljónum dala, jafnvirði tæpra 46 milljarða íslenskra króna, á síðasta ársfjórðungi. Til samanburðar nam hagnaður bankans 1,9 milljörðum dala á sama tíma í fyrra. Búist var við tapi hjá bankanum í skugga hremminga á fjármálamörkuðum og lélegrar tekju á markaði. Tapið er hins vegar talsvert meira en spáð var, að sögn Bloomberg-fréttastofunnar.

Þetta er annað skiptið sem fjárfestingarbankinn skilar tapi síðan hann var skráður á hlutabréfamarkað árið 1999.

Heildartekjur námu 3,6 milljörðum króna á fjórðungnum sem jafngildir 60% samdrætti á milli ára. Þar af drógust tekjur af fjárfestingarbankastarfsemi saman um 33% síðan í fyrra.

Lloyd Blankfein, stjórnarformaður og forstjóri Goldman Sachs Group
Lloyd Blankfein, stjórnarformaður og forstjóri Goldman Sachs Group
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Bloomberg segir forstjórann Lloyd C. Blankfein hafa bein fjárfestingum bankans í auknum mæli upp á síðkastið í eignahlutum í fyrirtækjum og fasteignum. Þessar fjárfestingar nema nú fimmtungi af eignastýringu bankans. Eignaverð hefur lækkað talsvert það sem af er ári og hefur það haft þessi neikvæðu áhrif á afkomu Goldman Sachs.

Stjórnendur bankans tilkynntu um hagræðingu í sumar. Frá í júní er búið að segja upp 1.300 starfsmönnum og eru þeir nú 34.200 talsins. Þetta hefur leitt til þess að rekstrarkostnaður hefur dregist saman um 1,2 milljarða dala.