Tap bandarísku bankasamstæðunnar Goldman Sachs Group á fjórða ársfjórðungi þessa árs 2,12 milljörðum dala eða því sem nemur tæpum 5 dölum á hvern hlut, samanborið við 3,2 milljarða dala hagnað á sama tíma í fyrra eða um 7 dölum á hvern hlut.

Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu frá samstæðunni en fjárhagsdagatal hennar endar í lok nóvember.

Þetta er í fyrsta skipti sem bankasamstæðan tapar fjármagni frá því að félagið var skráð á markað fyrir níu árum. Goldman Sachs hefur tekist ágætlega til miðað við aðstæður á fjármálamörkuðum en nú virðist sem kreppan á mörkuðum hafi náð í skottið á bankanum, eins og viðmælandi Bloomberg orðar það.

Greiningaaðilar á vegum Bloomberg fréttaveitunnar höfðu gert ráð fyrir tapi sem næmi um 3,7 dölum á hvern hlut þannig að tapið nú er nokkuð umfram væntingar.

Svo virðist sem fjárfestar hafi einnig gert ráð fyrir meira tapi því félagið hefur hækkað um 4,1% á mörkuðum í New York en markaðir hafa nú verið opnir í rúma klukkustund.

Tekjur bankans á fjórða ársfjórðungi námu aðeins tæpum 1,6 milljörðum dala samanborið við tekjur upp á 10,7 milljarða dali á sama tíma í fyrra. Þar af námu tekjur bankans af fjárfestingasviði um 1 milljarði dala.

Þess má geta að bankinn hætti að vera fjárfestingabanki á árinu og varð venjulegur viðskiptabanki.

Gengi Goldman Sachs hefur lækkað um tæp 70% það sem af er ári þrátt fyrir hækkunina í dag.