Bandaríski fjárfestingabankinn Goldman Sachs hefur slakað á reglum um klæðaburð starfsmanna í tæknideild sinni. Samkvæmt frétt Reuters er ástæðan sú að bankinn vill laða að hæfileikaríkt fólk úr tæknigeiranum með því að skapa afslappaðra andrúmsloft.

Goldman sem er fimmti stærsti banki Bandaríkjanna mun hafa greint starfsmönnum tæknideildar frá því að þeir ættu að beita sinni eigin dómgreind við að ákveða hvernig þeir skyldu klæða sig, samkvæmt minnisblaði sem Reuters hefur undir höndum. Það kom þó ekki fram hvort að hettupeysa og strigaskór væru leyfðir sem hefur oft hefur verið talinn einkennisklæðnaður ungs fólks í tæknigeiranum.

Goldman hefur ásamt fleiri bönkum á Wall Street lent í vandræðum með að fá til sín hæfileikafólk úr tæknigeiranum þar sem samkeppnin er mikil við fyrirtæki í Sílikondalnum og vogunarsjóði. Þessi fyrirtæki bjóða oft upp þægilegri vinnutíma og þægilegra starfsumhverfi.