Gengi evrópskra hlutabréfa mun hækka um allt að 6% á árinu 2008, jafnframt því að umrótið á fjármagnsmörkuðum mun koma niður á hagvexti í álfunni. Þetta kemur fram í nýrri hagspá bandaríska fjárfestingarbankans Goldman Sachs.

Greiningardeild bankans spáir því að evrópska hlutabréfavísitalan Dow Jones Stoxx 600 muni enda árið í 375 stigum, sem er 4,1% gengishækkun miðað við lokagengi vísitölunnar á miðvikudaginn. Jafnframt gerir bankinn ráð fyrir að Euro Stoxx 50-hlutabréfavísitalan, sem mælir gengisþróun 50 helstu félaga í Evrópu, muni hækka um tæplega 5% á árinu og standa í 4550 stigum í árslok.

Goldman ítrekar einnig fyrri spá sína frá 29. nóvember um að helsta hlutabréfavísitala evrópskra fyrirtækja gæti lækkað á bilinu 10-15% á fyrstu mánuðum ársins vegna þess að núverandi spár um hagnað félaganna séu "óraunsæjar".

Nánar er fjallað um spár helstu fjárfestingarbanka Wall Street um hlutabréfaþróun í Evrópu á árinu í erlendum fréttum Viðskiptablaðsins í dag.