Bandaríski fjárfestingabankinn Goldman Sachs ráðleggur viðskiptavinum bankans að loka stuttum stöðum sínum í 30 ára breskum Gullbrydduðum ríkisskuldabréfum (e. Gilts) áður en frekari skuldabréfaútgáfa ríkisins flæðir yfir skuldabréfamarkaðinn.

Goldman segist hafa áhyggjur af „miklu framboði á ríkisskuldabréfum gefin út til lengri tíma“, sem myndi líklega hafa áhrif á verð breskra ríkisskuldabréfa.

Fram kemur í frétt The Daily Telegraph að fjárfestingabankinn hafi lokað stuttri stöðu sinni í sterlingspundinu eftir að hafa hagnast mikið á gengisfalli pundsins í kjölfar hruns Northern Rock.

Sérfræðingar segja að erlendir fjárfestar gætu nú í auknum mælið horfið frá kaupum á breskum ríkisskuldabréfum vegna stórtækra aðgerða Englandsbanka og stjórnvalda, í því augnamiði að blása lífi í húsnæðismarkaðinn og losa um hömlur á peningamarkaði.

Vaxtaálagið á tíu ára Gullbrydduð bresk ríkisskuldabréf hækkaði úr 4,43% í 4,71% í síðustu viku, ein mesta hækkun á jafn skömmum tíma í mörg ár. Álagið á slík ríkisskuldabréf er núna 67 punktum hærra heldur en á þýskum ríkisskuldabréfum og 88 punktum hærra en á bandarískum. Það er erfitt að henda reiður á hvort vegi þyngra í þessari skörpu hækkun: Vaxandi verðbólguótti eða áhyggjur fjárfesta vegna þeirra skulda á húsnæðismarkaði sem breska ríkið hefur gengist í ábyrgð fyrir.

Slæm staða ríkisfjármála

Staða ríkisfjármála í Bretlandi er með versta móti borið saman við helstu ríki Evrópu, og nemur halli ríkissjóðs um 3% af vergri landsframleiðslu. Í frétt Daily Telegraph er haft eftir Marc Ostwald, skuldabréfasérfræðingi hjá Insinger de Beaufort, að það sé líklegra en ekki að hallinn muni aukast upp í 4-5%. „Það sem er kannski alvarlegast er á hversu skömmum tíma efnahagshorfurnar hafi versnað. Heildarskuldir breska ríkisins gætu aukist upp fyrir 60% af vergri landsframleiðslu“, segir Ostwald.

Ákvörðun Englandsbanka að heimila bönkum og öðrum lánastofnunum að skipta á veði í fasteignatryggðum skuldabréfavafningum fyrir bresk ríkisskuldabréf, mun nánast örugglega verða til þess að auka verulega útgáfu nýrra Gullbryddaðra ríkisskuldabréfa.

Fram kemur í Daily Telegraph að nú þegar hafi yfirvöld kynnt áform um útgáfu á Gyllbrydduðum ríkisskuldabréfum fyrir 15 milljarða punda. Breskar bankastofnanir, sem hafa um 35 milljarða punda af illseljanlegum fasteigatryggðum skuldabréfavafningum á bókum sínum að mati Lehman Brothers, munu líkast til skipta á þeim fyrir Gullbrydduð ríkisskuldabréf.

Samfara ákvörðun Goldman að veðja á verðlækkun Gullbrydduðaðra ríkisskuldabréfa, hefur bankinn tekið langa stöðu í eins árs vöxtum á peningamarkaði, betur þekktir sem Sonia-vextir, til að verja sig. Sú ákvörðun byggist á þeirri skoðun að aðgerðir Englandsbanka muni leiða til lækkunar á Sonia-vöxtum, sem nú standa í methæðum.

Fjármagnskostnaður gæti numið 150 milljörðum punda

Sumir fjármálasérfræðingar leiða að því líkur að eftir því sem lánsfjárkreppan dregst á langinn eigi athygli manna í auknum mæli eftir að beinast að slæmri skuldastöðu breska ríkisins. Hagrannsóknarfyrirtækið Capital Economics hefur varað við því að hörð lending í efnahagslífinu gæti haft „hörmulegar afleiðingar“ fyrir ríkisreikninga Bretlands.

„Djúpt samdráttarskeið í líkingu við það sem Bretland gekk í gegnum í byrjun tíunda áratugarins gæti orðið til þess að hækka árlegan fjármagnskostnað fyrir ríkið upp í 150 milljarða punda“, að mati Capital Economics.

Slíkt samdráttarskeið verður að teljast ólíklegra en áður sökum aðgerða breskra stjórnvalda. Hins vegar er ljóst að erlendir fjárfestar eiga Gullbrydduð ríkisskuldabréf fyrir 166 milljarða punda, sem gæti gert breska hagkerfið berskjaldað gagnvart fjármagnsflótta vegna aukins vantrausts fjárfesta.

Þjóðnýting Northern Rock hefur nú þegar aukið skuldir ríkisins um 100 milljarða punda að nafnverði. Það er með öllu óvíst hversu mikið af þeirri upphæð verður endurheimt ef húsnæðisverð lækkar um 15%, eins og bandaríski fjárfestingabankinn Citigroup gerir ráð fyrir.