Endurskoðandinn Margrét Pétursdóttir var í sviðsljósinu í síðustu viku þegar úttektarskýrsla um störf Orkuveitunnar var birt. Margrét var formaður úttektarnefndarinnar en í henni sátu auk hennar þau Ása Ólafsdóttir hrl., lektor við lögfræðideild Háskóla Íslands, og Ómar Hlynur Kristmundsson, prófessor við stjórnmálafræðideild HÍ.

Að sögn Margrétar er helsta áhugamálið golf en hún er meðlimur í GKG. Hún segir að nýliðið sumar hafi hins vegar ekki nýst sem skyldi á golfvellinum og forgjöfin eftir því. Til marks um golfáhugann fer hún reglulega í golfferðir erlendis, sú lengsta hingað til var til Tælands.

Áður en golfið tók yfir stundaði Margrét göngur og segist hún leggja mikið upp úr heilsunni og hollustu. Göngusportið hefur fengið að víkja fyrir golfinu og er í dag á hliðarlínunni. Þá nefnir hún jeppadellu sem eitt af áhugamálum sínum og á sumrin ferðast hún um sveitir landsins með fellihýsi auk þess sem hún fer í einstaka jeppaferðir upp á hálendið.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.