„Ég kláraði MBA-nám í fyrra, hafði nýverið selt hlut minn í Zik Zak og langaði í nýjar áskoranir. Ég ætlaði ekkert endilega að skoða neitt fyrr en í haust en yfir einum morgunbollanum rak ég augun í þessa starfsauglýsingu. Ég ákvað því að sækja um, þótt ekki væri nema fyrir reynsluna af því að vera með í umsóknarferlinu,“ segir Skúli Malmquist.

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á dansi og menningu og starfið sjálft er gífurlega spennandi. Ef þau hefðu verið að leita að einhverjum til að sitja bara við skrifborðið hefði örugglega verið hægt að finna betri kandídat en mig. En ég tel að það séu vaxtartækifæri til staðar fyrir flokkinn, bæði heima og erlendis, og ég tel að þar geti sambönd mín og reynsla nýst vel,“ segir Skúli.

Veirupestin hefur haft mikil áhrif á starfsemi flokksins. Skúli tekur því við stjórnartaumunum á skrítnum tímum. Flokkurinn dó ekki ráðalaus og dansararnir fengu það verkefni að semja sólóverk. Unnin voru myndbands örverk sem verða frumsýnd í haust.

„Sömuleiðis verða frumsýnd sex ný verk á þessu dansári. Á árinu 2023 heldur flokkurinn upp á 50 ára starfsafmæli, það verður stórt ár sem er þegar í undirbúningi. Draumurinn er auðvitað að flytjast í nýtt danshús það árið, vonandi gengur það eftir.“

Lengst af lifði Skúli og hrærðist í heimi kvikmyndanna sem einn eigenda Zik Zak. Þar kom hann að framleiðslu á þriðja tug kvikmynda, þar á meðal Nóa albinóa, Ég man þig, Andið eðlilega, Brim og Svartur á leik svo fátt eitt sé nefnt. „Ég hvet félaga mína og fyrrverandi kollega til að gera Svartur á leik II, jafnvel III, t.d. forleik og framhaldsmynd“.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .