Vergur gjaldeyrisforði Seðlabankans lækkaði um 43,5 milljarða króna milli júlí og ágúst á þessu ári. Forðinn nam um 786,2 milljörðum króna í lok ágúst. Á sama tíma lækkaði hrein erlend staða Seðlabankans um 55,2 milljarða króna.

Samkvæmt tilkynningu Seðlabankans lækkar forðinn af tveimur ástæðum. Annars vegar vegna afborgana á lánum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem nemur um 13 milljörðum og hinsvegar lækkun á gjaldeyrisreikningum fjármálafyrirtækja í slitameðferð, sem nemur um 33,6 milljörðum króna. Lækkun á gjaldeyrisreikningum fjármálafyrirtækja í slitameðferð virðist því vera helsta ástæðan fyrir lækkun gjaldeyrisforðans.

Á heimasíðu Seðlabankans kemur fram að frá því í október 2008 hafa fjármálafyrirtæki í slitameðferð lagt inn erlendan gjaldeyri á reikninga hjá Seðlabanka Íslands við endurheimtur fjármuna. Hefur sá erlendi gjaldeyrir aukið vergan gjaldeyrisforða. Innstæðurnar hafa verið flokkaðar sem erlend skammtímaskuld og því ekki haft áhrif á hreinan gjaldeyrisforða. Erlendur gjaldeyrir sem lagður hefur verið inn á reikning í Seðlabankanum með þessum hætti hefur síðan verið ávaxtaður hjá öruggustu stofnunum sem völ er á, Alþjóðagreiðslubankanum í Basel og hjá öðrum seðlabönkum.

Fjármálafyrirtæki í slitameðferð geta tekið út gjaldeyrisinnstæður sínar hvenær sem er. Áhrif þess eru þau að vergur gjaldeyrisforði Seðlabankans lækkar sem þeim innstæðum nemur en gjaldeyrisjöfnuður Seðlabanka Íslands verður óbreyttur.

Nettó útgreiðslur gjaldeyriseigna Seðlabankans og ríkissjóðs fyrir næstu 12 mánuði eru áætlaðar um 328 milljarðar króna miðað við í lok ágúst 2012. Þetta kemur fram á heimasíðu Seðlabankans.