„Allar okkar áætlanir um hagræðingu og slíkt hafa gengið eftir og gott betur. Þannig að þetta spillir auðvitað mikið gleðinni,“ segir Birgir Björn Sigurjónsson, fjármálastjóri Reykjavíkurborgar, um rekstrarniðurstöðu borgarinnar samkvæmt ársreikningi 2011. Rekstrarniðurstaðan var neikvæð um 4,675 milljarða en þar af má rekja tæpa 4,4 milljarða til gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga.

Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar var stofnaður árið 1930. Eftir stofnun Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga (LSS) árið 1998 var sjóður Reykjavíkurborgar lokaður nýjum sjóðsfélögum. Fyrrnefndi sjóðurinn er að mestu leyti sambærilegur við B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

Í þessum sjóðum er lífeyrir ekki verðtryggður heldur bundinn launum. Þegar samið er um launahækkanir með kjarasamningum ná þær launahækkanir því einnig til lífeyrissjóðanna.

Þetta hefur ekki aðeins áhrif á rekstrarniðurstöðu Reykjavíkurborgar heldur fleiri sveitarfélaga, sem einnig höfðu sína eigin lífeyrissjóði. Sem dæmi má nefna Kópavog og Akureyrarbæ líkt á sjá má á meðfylgjandi töflu:

Mikil áhrif lífeyrisskuldbindinga
Mikil áhrif lífeyrisskuldbindinga
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.