Hjalti Jónsson, framkvæmdastjóri Íslensku auglýsingastofunnar, bendir á að hlutfall stafrænna miðla af auglýsingamarkaðnum sé mun lægra á Íslandi en þekkist víða erlendis. „Þróunin ræðst af því að hinir hefðbundnu miðlar hér á Íslandi eru ennþá feiknasterkir, alveg sama hvort þú lítur til sjónvarps, dagblaða eða útvarps,“ segir hann. „Þetta er bara þróun sem á sér stað yfir lengri tíma.“ Hjalti bendir á að nálægt 20% af fé sem nýtt hafi verið í birtingar hér á landi hafi verið í gegnum stafræna miðla á síðasta ári. „Þannig að samfélagsmiðlar sem slíkir eru enn sem komið er ekki mjög stór hluti en vaxandi,“ segir Hjalti.

Ragnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Brandenburg  segir auglýsingabransann á sífelldri hreyfingu. „Það er bara eðli þessa bransa að það er sífellt verið að leita nýrra leiða til að markaðssetja vörur og þjónustu. Þessi geiri er mjög fljótur að stökkva til og prófa nýja hluti. Samfélagsmiðlar og netið hafa skapað ný tækifæri sem auglýsingastofur eru á fullu að nýta sér. Umhverfið er að verða flóknara og margbrotnara,“ segir Ragnar.

„Við höfum alltaf litið á það þannig að það eru í sjálfu sér alltaf að koma inn einhverjir nýir miðlar, hvort sem þeir heita áhrifavaldar eða samfélagsmiðlar. En það verður alltaf eftirspurn eftir góðum hugmyndum,“ segir Ragnar.

„Það sem kallar á meiri hugmyndaauðgi er að fólk á rosalega auðvelt með að sigta út, fletta framhjá og hoppa yfir það sem það sér á netinu og gefur því ekki séns nema það sé eitthvað áhugavert.“

Hjalti segir ekki síður áskorun að ná í gegn á samfélagsmiðlum en annars staðar. „Okkar viðskiptavinir eru búnir að átta sig á því líka að það er ekki nóg að fara inn á samfélagsmiðla og gera eitthvað. Það er ekki minni áskorun fyrir fyrirtæki að ná í gegn á stafrænum miðlum en í hefðbundnum miðlum. Það er gríðarlegt framboð og magn af upplýsingum og auglýsingaáreiti og það er alveg jafn mikil áskorun að ná í gegn þar eins og á hinum hefðbundnu  miðlum,“ segir Hjalti.

Hjalti er efins um rekstrargrundvöll fyrirtækja sem sérhæfa sig eingöngu í markaðssetningu á samfélagsmiðlum. „Ísland er auðvitað í grunninn lítill markaður. Það er ekki mikið pláss fyrir mikla sérhæfingu. Það sem við höfum séð á síðustu misserum er að það hafa verið stofnuð fyrirtæki sem veita sérstaklega ráðgjöf tengda samfélagsmiðlum. Það er eitthvað sem ég á eftir að sjá að sé til lengri tíma sjálfbært eitt og sér. Þetta er og verður hluti af vöruborði og þeirri þekkingu sem hefðbundnu stofurnar bjóða upp á. Markaðurinn hérna heima er það lítill að menn þurfa að vera með breitt vöruborð og mikla þekkingu á öllum sviðum til þess að plumma sig á markaðnum,“ segir Hjalti.