*

þriðjudagur, 18. janúar 2022
Innlent 29. október 2017 15:04

Gömlu slæmu dagarnir

Johan Norberg hélt fyrirlestur þar sem hann fjallaði um efnivið bókar sinnar um framfarir í heiminum síðasta aldarfjórðunginn.

Höskuldur Marselíusarson
Haraldur Guðjónsson

Í fyrirlestri sagnfræðingsins Johans Norberg um bók sína, Framfarir, fór hann yfir hve mikið heimurinn hefur batnað, sérstaklega síðustu 25 árin, og hvaða ógn stæði í vegi fyrir því að sú þróun gæti haldið áfram. Fyrirlesturinn sem haldinn var í Háskóla Íslands var vel sóttur en hér má sjá myndir frá fundinum.

Sænski sagnfræðingurinn Johan Norberg hélt í byrjun vikunnar fyrirlestur í Háskóla Íslands í tilefni útgáfu Almenna bókafélagsins á bók hans Framfarir: Tíu ástæður til að taka framtíðinni fagnandi, í íslenskri þýðingu, en hann telur að of lítið sé sagt frá stóru fréttunum í heimssögunni. Það er að fátækt sé að minnka, lífslíkur að aukast sem og læsi, heilsufar að batna, stríðum að fækka, ofbeldi sé að minnka og hópar sem hafi átt undir högg að sækja séu að njóta sín sífellt betur sem og að umhverfisvernd sé að verða auðveldari.

„Ég er í grunninn að skoða síðustu 200 hundruð árin, en ég einblíni sérstaklega á síðustu 25 árin því ég held að framfarirnar á þeim tíma hafi verið alveg einstaklega markverðar,“ segir Norberg þegar blaðamaður settist niður með honum eftir fundinn og spurði hann út í meginskilaboð bókarinnar.

„Bókin skiptist í tíu kafla, en ég byrja á að fjalla um fæðuöflun og hungur, númer tvö er svo hreinlæti því það verður að vera hægt að losna við úrganginn eftir átið. Síðan horfi ég á heilbrigði og lífslíkur, svo fátækt, lestrarkunnáttu, ofbeldi og glæpi og síðan umhverfismál. Loks skoða ég frelsi, lýðræði, jafnrétti og réttindi minnihlutahópa en í síðasta kaflanum skoða ég svo næstu kynslóð og þá hluti eins og barnaþrælkun og tækifæri ungs fólks í lífinu.“

Var sjálfur fullur af fortíðarþrá

Spurður hvers vegna hann hefði skrifað bókina segist hann hafa áður verið sjálfur mjög svartsýnn og fullur af fortíðarþrá. „Ég var sífellt að kvarta yfir því hvert heimurinn væri að þróast, alveg þangað til ég fór að rannsaka söguna og skoða gömlu góðu dagana og áttaði mig á því að þeir voru hræðilega slæmir,“ segir Norberg sem einnig hefur skrifað bókina Til varnar alþjóðlegum kapítalisma.

„Til að mynda voru lífslíkur forfeðra minna í norðurhluta Svíþjóðar einungis um 40 ár og þurftu þeir að blanda trjáberki í brauðið vegna skorts á öllu því sem ég áður kvartaði yfir. Má þar nefna alþjóðaviðskipti og þá nútímalegu þéttbýlismyndun sem ég gerði mér ekki grein fyrir að tryggðu að frumkvöðlar gátu stofnað fyrirtæki sem aftur leiddi til þess að fólk gat sérhæft sig. Því þannig getur fólk lagt sitt af mörkum til heimsins og að sama skapi keypt aftur það sem það þarf, þar á meðal mat, frá öðrum hlutum heimsins.“

Johan Norberg hefur síðustu ár starfað fyrir Cato-hugveituna auk þess sem hann tók við sem aðalritstjóri Free To Choose Media í upphafi árs en megindrifkraftinn til að skrifa bókina segir hann vera viljann til að verja þær framfarir sem hafa átt sér stað og þær stoðir sem gera þær mögulegar.

„Það sem gerir okkur í dag kleift að nýta bestu hugmyndirnar og bestu tæknina svo sífellt fleira fólk getur lagt sitt af mörkum er hve einstakt tímabil í mannkynssögunni við erum að upplifa þar sem vörur, fólk og þjónusta getur flætt yfir landamæri án mikilla hindrana,“ segir Norberg.

„Það er ástæðan fyrir því að við höfum á síðustu 25 árum dregið úr algerri fátækt, hungri í heiminum, barnadauða, vankunnáttu í lestri og svo framvegis, um nálega helming. Nú hefur fólk meira frelsi en nokkru sinni til að kynna sér nýja þekkingu og vísindi og gert tilraunir með að nýta nýja tækni og viðskiptamódel sem það hafði ekki heyrt um áður og deila þekkingunni yfir landamæri.“

Svartsýni almennings styrkir popúlista

Norberg hefur áhyggjur af því að þetta opna heimssamfélag sé nú í hættu frá popúlískum stjórnmálamönnum sem tala gegn alþjóðavæðingunni. „Til dæmis gæti Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, byrjað að leysa upp fríverslunarsamninga milli landa og heimsálfa. Slíkar stofnanir og frelsið sem við höfum notið þarf á því að halda að einhver haldi uppi vörnum fyrir árangurinn af þeim. Þess vegna skrifaði ég bókina,“ segir Norberg sem telur helstu ástæðuna fyrir því að slíkir stjórnmálamenn komist til valda sé aukin svartsýni og hræðsla almennings.

„Þegar við erum hrædd þá eru meiri líkur á að við hugsum til skamms tíma, að okkur finnist sem við verðum að leysa öll okkar vandamál strax og til þess þurfi sterkan mann sem geti verndað okkur. Þessi bók er tilraun til að segja við fólk, ekki hafa áhyggjur, ekki kasta árangrinum sem við höfum náð á glæ, heldur reynum frekar að byggja á honum.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.