„Hin alþjóðlega fjármálakreppa lætur ekkert land ósnortið um þessar mundir, en Ísland hefur orðið harðast úti það sem af er kreppunnar. Þrír stærstu íslensku bankarnir, Kaupþing, Landsbankinn og Glitnir höfðu vaxið íslenskum efnahagslífi langt yfir höfuð á alþjóðlegum vettvangi. Stærð þeirra var u.þ.b. tífaldar árlegar þjóðartekjur Íslands.  Þegar þeir lentu í erfiðleikum eins og aðrir bankar víða um heim, áttu ríkisstjórn Íslands og Seðlabankinn ekki möguleika á að bjarga þeim frá falli.“

Þetta kemur fram í ávarpi sem stjórn MP Fjárfestingabanka hefur sett inn á heimasíðu sína.

Tilkynningin er ætluð erlendum viðskiptavinum bankans og erlendum bönkum, enda er tilkynningin á 5 tungumálum, íslensku, ensku, rússnesku, úkraínsku og litháensku.

Í ávarpinu kemur fram að sem betur fer var ríkissjóður skuldlítill og hefur því færi á að takmarka tjónið.

„Íslenska lífeyrissjóðakerfið er áfram eitt það best fjármagnaða í heimi með milljarða evra fjárfesta utan Íslands. Lífeyrissjóðirnir veita stöðugleika og tilvist þeirra er huggun harmi gegn fyrir þjóðina í núverandi erfiðleikum. Til viðbótar við orkuauðlindir, svo sem heitt vatn, vatnsorku til raforkuframleiðslu og langar lífslíkur eru lífeyrissjóðirnir ennþá nokkuð sem erlendar þjóðir geta öfundað okkur af.

Til langframa eru horfur íslensku þjóðarinnar því bjartar en nú tekur við harður vetur sem mun bitna hvað mest á okkur.

Nú munu gömul gildi svo sem sparnaður og aðhald aftur ráða ferðinni og það er ekki með öllu slæmt. Við væntum þess nú að Ísland muni semja við Alþjóða Gjaldeyrissjóðinn um aðstoð hans við að koma á efnahagslegum stöðugleika.

Jafnframt má gera ráð fyrir að hafnar verði formlegar viðræður við erlenda lánardrottna stóru bankanna og réttur þeirra tryggður á sanngjarnan og lögmætan hátt. Þannig mun Ísland aftur ná sér á strik á alþjóðlegum vettvangi og eftir 2-3 ár ættu náttúruauðlindir og sérstaða landsins að leiða til viðsnúnings í rétta átt,“ segir í ávarpinu.

Þar er vakin athygli á því að MP Fjárfestingarbanki hefur náð að stýra fram hjá stærstu skerjum í ólgusjónum á Íslandi og erlendis.

„Þetta hefur Fjármálaeftirlitið virt með þeim hætti að veita okkur viðskiptabankaleyfi eftir fall stóru bankanna.  Innstreymi í sjóði og eignaumsýslu okkar hefur aldrei verið jafnmikið og undanfarnar vikur, enda ljóst að MP Fjárfestingarbanki hefur reynst traustsins verður. Þetta er opinberlega staðfest með tölum frá Fjármálaeftirlitinu sem sýna að fall peningamarkaðssjóða kemur langminnst niður á okkar viðskiptavinum.  Okkur er mikill heiður sýndur með þessu trausti FME og hins almenna fjárfestis og við erum fyllilega meðvituð um þá miklu ábyrgð sem þetta leggur okkur á herðar.

Í Mið- og Austur-Evrópu erum við áfram staðráðin í að veita framúrskarandi góða og persónulega fjármálaþjónustu. Við vonumst t.d. til þess að innan fárra ára geti margir Litháar litið björtum augum til öruggra eftirlaunatekna að loknum starfsferli vegna inneignar í lífeyrissparnaði.

Það er mjög ánægjulegt að geta sagt frá því að þrátt fyrir alla erfiðleikana á fjármálamörkuðum þá hafa þeir sem hafa stundað lífeyrissparnað hjá okkur, ekki orðið fyrir neinum töpum.

Við höfum vaxið hægt og örugglega í þessum hluta Evrópu og munum halda okkar striki. Áhættudreifing starfseminnar í burt frá Íslandi hefur reynst mjög farsæl þó að sjálfsögðu gæti áhrifa fjármálakreppunnar alls staðar,“ segir í ávarpinu.