Á borgarafundir um samgöngumál í Vestmannaeyjum í gær kom Árni Johnsen, fyrrverandi þingmaður, með tillögu um að hætta við smíði nýs Herjólfs og gera í staðinn jarðgöng til Eyja. Greint er frá þessu í Fréttablaðinu í dag.

Árni fullyrðir að gerð jarðganga sé til langs tíma ódýrari kostur en að smíða nýja ferju og fara í endurbætur á Landeyjahöfn.

„Það liggur fyrir frá Samgöngustofu að Landeyjahöfn verður ekkert betri en hún er í dag þótt þar verði gerðar breytingar og byggðir nýir varnargarðar," segir Árni í samtali við Fréttablaðið.

„Mér er sagt hjá Samgöngustofu að þar beri mönnum ekki saman um það hvort eigi að hanna skipið og smíða það eða smíða líkan og prufa það við aðstæður sem eru í Landeyjahöfn. Þetta nýja skip mun kosta um sex milljarða auk rekstrarkostnaðar, bæði á ferju og höfnum. Jarðgöngin munu afskrifast á endanum og kosta um 20 til 25 milljarða samkvæmt mínum heimildum,“ segir Árni í samtali við blaðið.