„Þetta leggst mjög vel í mig. Það hefur verið einstaklega áhugavert að kafa ofan í málefni skólans þessa fyrstu daga mína sem rektor og ég sé það strax hversu mikið starfsfólk skólans hefur lagt á sig til þess að unnt væri að halda uppi starfsemi skólans þrátt fyrir mikinn niðurskurð síðustu ára,“ segir Eyjólfur Guðmundsson, nýr rektor háskólans á Akureyri. Rektorsskipti fóru fram þann 1. júlí síðastliðinn og þá tók Eyjólfur formlega við embættinu.

Eyjólfur er menntaður hagfræðingur, hann lauk grunnámi á Íslandi og lauk svo doktorsprófi í Bandaríkjunum við University of Rhode Island. Hann hefur starfað hjá CCP síðan árið 2007 sem sviðsstjóri greiningar og aðalhagfræðingur. Þar áður starfaði hann hjá háskólanum á Akureyri við kennslu og rannsóknir og undir lokin sem deildarforseti viðskipta- og raunvísindadeildar skólans. Eyjólfur segist hafa verið viðriðin háskóla síðustu 25 ár, ýmist sem nemandi, kennari eða samstarfsaðili.

Eyjólfur á mörg áhugamál, hann fer á skíði, stundar fjallgöngur og svifflug og segir þetta allt því miður keppa ansi hart hvert við annað um tíma sinn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út 10. júlí 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn tölublöð.