Senda á kröfuhöfum þrotabúa föllnu bankanna þau skilaboð að gengið verði eins langt til að verja hagsmuni landsins og lög leyfa, að sögn Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Hún bendir á að eitt af stóru málum ríkisstjórnarinnar, Seðlabankans og Alþingis er að ræða um fyrirhugaða nauðasamninga bankanna og forðast neikvæð áhrif útgreiðslna til þeirra á íslenskt efnahagslíf og lífskjör fólks.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði í sérstökum umræðum um stöðu þjóðarbúsins á Alþingi sem hann boðaði í dag að staða þjóðarbúsins væri slæm og aflaði það ekki nægs gjaldeyris til að standa straum af erlendum skuldum. Hann vitnaði til þess sem Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, segir í samtali við Morgunblaðið í dag. Þar segir hann skuldir þjóðarbúsins nema 100% af vergri landsframleiðslu. Þar af séu nettóáhrif þróabúa gömlu bankanna 30-40%. Verði ekkert að gert muni skuldastaðan versna verulega á næstu 60 árum og verða 230% af landsframleiðslu, að sögn Sigmundar, sem lagði ríka áherslu á að grípa í taumana og spurði forsætisráðherra til hvaða ráða ríkisstjórnin hyggist grípa til að svo skuldirnar verði sjálfbærar.

Seðlabankinn stýrir greiðsluflæðinu

Jóhanna svaraði því til að að staða efnahagsmála hér væri almenn góð og verðmætasköpun í samfélaginu að aukast. Þá hefðu skuldir fyrirtækja og heimila lækkað verulega frá hruni, farið úr 510% af landsframleiðslu niður í 200%. .

„Talið er að skuldir hins opinbera hafi náð hámarki á síðasta ári, 101% af landsframleiðslu en verði 97% á þessu ári. Skuldir hins opinbera eru svipaðar og í öðrum ríkjum, ríkið ræður vel við skuldir sínar. Ekkert bendir til annars en að rekstur ríkissjóðs verði sjálfbær á næsta ári,“ sagði Jóhanna en benti á að umræðan um fyrirhugaða nauðasamninga gömlu bankanna væri á villugötum

Þá sagði Jóhanna mikilvægt að Seðlabankinn hafi fengið yfirráð með útgreiðsluvaldinu til kröfuhafa bankanna. „Hann mun ekki setja neinar reglur sem geta ógnað lífskjörum. Það er mjög mikilvægt að vel sé að þessu máli staðið.“