Good Good hefur ráðið þær Þóru Björgu Stefánsdóttur í starf aðfangastjóra og Morgen Cole sem sölustjóra í Bandaríkjunum, en fyrirtækið hefur verið í miklum vexti þar í landi að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Þóra Björg Stefánsdóttir er með mastersgráðu frá Háskólanum í Álaborg í Operations and Management Engineering og BS-gráðu frá Háskólanum í Árósum í Global Management and Manufacturing Engineering. Hún starfaði áður sem innkaupa- og framleiðslustjóri hjá Arctic Shopping ehf.

„Ráðning Þóru er liður í frekari uppbyggingu Good Good á heimsvísu, enda kemur hún inn í fyrirtækið með víðtæka reynslu, bæði úr námi sínu sem og af vinnumarkaði”, segir Garðar Stefánsson, framkvæmdastjóri hjá Good Good.

Morgen Cole hefur verið ráðin á skrifstofuna í Bandaríkjunum en hún er með yfir 12 ára reynslu úr neytendamatvöruiðnaðinum þar í landi (e. Consumer Packaged Goods). Hún starfaði áður fyrir Trü Frü, Healthy Times og Madécasse Chocolate & Vanilla. Hún er menntaður viðskiptafræðingur frá Ohio State háskólanum í Bandaríkjunum.

„Morgen hefur mikla reynslu úr matvöruiðnaðinum sem nýtist Good Good vel í Bandaríkjunum og munum við njóta góðs af víðtækri reynslu hennar í okkar áframhaldandi sókn inn á bandaríska markaði,“ segir Garðar.

Good Good er íslenskt fyrirtæki sem þróar og framleiðir matvöru án sykurs og gervi-sætuefna. Vörurnar eru þróaðar og framleiddar á Íslandi, í Hollandi, Belgíu og Austurríki. Vörur Good Good fást nú í 31 landi í um það bil 2500 verslunum en vöxturinn hefur verið hraðastur í Bandaríkjunum.