Íslenska nýsköpunar- og matvælafyrirtækið Good Good hefur lokið 20 milljón dala hlutafjáraukningu, sem er að jafnvirði um 2,6 milljarða króna. Hlutafjáraukningin var leidd af framtakssjóðnum SÍA IV, en einnig tóku þátt í henni aðrir innlendir fjárfestar og núverandi hluthafar fyrirtækisins.

Með aðkomu SÍA IV verður sjóðurinn næst stærsti hluthafi Good Good með 24,4% hlut. Stærsti hluthafi Good Good er Eignarhaldsfélagið Lyng, móðurfélag Ósa, sem á m.a. Icepharma og Parlogis, með 34,7% hlut.

Velta Good Good nam 7,3 milljónum dala í fyrra, andvirði um eins milljarðs króna, og jókst hún um 60% á milli ára. Aukningin var einkum drifin áfram í Bandaríkjunum, þar sem verslanakeðjan Publix tók sultur inn í tæplega 1.300 verslanir, og í netverslun Good Good, þar sem veltan áttfaldaðist í fyrra. Frá stofnun hefur velta fyrirtækisins aukist um 123% á ári að meðaltali og er allt útlit fyrir áframhaldandi hraðan vöxt í ár, þar sem sala í Bandaríkjunum á fyrsta fjórðungi þessa árs jókst um 190% frá sama tíma í fyrra.

„Tekjur félagsins hafa rúmlega tvöfaldast árlega frá stofnun þess. Í þessari hlutafjáraukningu var lögð áhersla á að styrkja hluthafahóp Good Good til framtíðar,“ segir Jóhann Ingi Kristjánsson, stjórnarformaður Good Good, í fréttatilkynningu.

„Við erum afar ánægð með framgang hlutafjáraukningarinnar en eftirspurn reyndist langt umfram væntingar. Hlutafjáraukningin treystir stoðir félagsins fyrir áframhaldandi sókn og vöxt í Bandaríkjunum sem og í netsölu á erlendum mörkuðum. Á síðustu misserum hefur mikið af reyndu fólki bæst í öflugan hóp Good Good á Íslandi, í Bandaríkjunum og  Bretlandi. Hlutafjáraukningin skiptir sköpum fyrir enn kraftmeiri vöruþróun og markaðssókn Good Good.“

Markaðsrannsóknir, gerðar á vegum greiningarfyrirtækisins SPINS, sýna að sultur Good Good eru orðnar 16. vinsælasta sultuvörumerkið á Bandaríkjamarkaði þar sem rúmlega 600 sultuframleiðendur berjast um hylli neytenda.

„Við kynntumst stjórnendum Good Good fyrst árið 2019 og fannst félagið þá þegar hafa náð eftirtektarverðum árangri,““ segir Heiðar Ingi Ólafsson, sjóðsstjóri SÍA IV, sem er 16 milljarða framtakssjóður í stýringu Stefnis. „Við höfum svo fylgst með fyrirtækinu og það hefur verið einkar ánægjulegt að sjá hve vel hefur tekist til við að ná markmiðum stjórnenda varðandi vöxt félagsins og þróun vörumerkisins. Við erum spenntir fyrir þeirri vegferð sem framundan er og hlökkum til að vinna með félaginu við að ná enn frekari árangri.”

Good Good var stofnað árið 2015 á grunni stevíudropaframleiðslu í Hafnarfirði af Agnari Tryggva Lemacks, Garðari Stefánssyni og Jóhanni Inga Kristjánssyni. Fyrirtækið byrjaði á því að framleiða sykurlaust sætuefni og fljótlega bættust lágkolvetnasultur við, en í dag býður vörumerkið upp á fjölbreytta línu af áleggi, ketó-stöngum, sírópum, sultum og náttúrulegum sætuefnum.