*

mánudagur, 6. desember 2021
Innlent 12. október 2021 19:03

Good good sækir 260 milljónir til viðbótar

Matvælasprotinn, sem hefur vaxið hratt, hefur aukið vöruframboð sitt samhliða 2 milljóna dala fjármögnunarlotu.

Ritstjórn
Garðar Stefánsson, framkvæmdastjóri Good good, segir öran vöxt félagsins til marks um áhuga og eftirspurn eftir náttúrulegum sætuefnum í matvælagerð.
Aðsend mynd

Íslenska matvörusprotafyrirtækið Good good hefur lokið sinni annarri fjármgönunarlotu upp á 260 milljónir króna eftir að hafa aukið veltu um 171% milli ára í fyrra.

Félagið – sem sérhæfir sig í framleiðslu sykurlausrar útgáfu matvöru sem alla jafna er sykur í – er í frétt vefmiðilsins Bakery and snacks sagt vera að auka við sig vöruúrval, meðal annars með nýjum pönnukökum og wöfflum.

Good good sótti sér um 400 milljónir króna í sinni fyrstu fjármögnunarlotu í fyrravor. Fjárfestingin nam 3 milljónum Bandaríkjadala og kom frá hópi fjárfesta sem leiddur var af Icepharma, K2B Investments og Aton.JL, sem einnig hannaði vöruumbúðir fyrirtækisins.

Sömu fjárfestar stóðu að baki þeim 2 milljónum dala sem félagið varð sér úti um í áðurnefndri nýafstaðinni fjármögnunarlotu, en fjármagnið er sagt verða notað til að auka framleiðslu og vöruþróun.

Haft er eftir Garðari Stefánssyni, meðstofnanda og framkvæmdastjóra Good good, að mikill vöxtur félagsins sé til marks um síaukna eftirspurn eftir náttúrulegum sætuefnum í matvælaframleiðslu, sem „gefi ekkert eftir í bragði“.