Opinber 10 ára afmælisdagur leitarvélarinnar Google rennur upp í þessum mánuði. Hvenær nákvæmlega er tímabært að halda upp á afmælið er þá ekki alveg öruggt.

Opinberi afmælisdagurinn er 27. september. Hins vegar flækist málið ef saga leitarvélarinnar er skoðuð, en í janúar 1996 höfðu Larry og Sergey, sem fundu upp Google, þegar byrjað að hanna leitarvél sem þá gekk undir nafninu BackRub. Sé miðað við þann tíma er Google tæplega 13 ára.

Google.com lénið var skráð 15. september 1997, samkvæmt því verður leitarvélin 11 ára í næstu viku.

Viðmiðunin sem forsvarsmenn Google nota sjálfir, þ.e. september 1998, miðast við hvenær stofnað var hlutafélag utan um reksturinn. Upphaflega var afmælisdagurinn hafður 7. september, en árið 2005 var hann færður aftur til 27. september og hefur verið miðað við þann dag síðan.

Ástæða þess að hann var færður aftur til 27. september fyrir þremur árum síðan er sú að Google vildi bíða með tilkynninguna þar til hægt væri að tilkynna um að met hefði verið slegið í fjölda vefsíðna sem leitarvélin leitaði á.