Google er hið fullkomna dæmi um að ekki sé samhengi milli orðspors fyrirtækja og fjármuna sem varið er í auglýsingar. En Google trónir á toppi bandarískrar könnunar um þau fyrirtæki sem eru í mestum metum. Hin jákvæða sýn á fyrirtækið; hvernig farið er með starfsmenn, samfélagsábyrgð sem og varan og þjónustan sem boðið er upp á, auk fjölmiðlaumfjöllunar, hefur líklega þessi áhrif, að mati forsvarsmanna könnunar Harris Poll. Þetta kemur fram í frétt Ad Age.

Efstu sætin í könnuninni skipa fyrirtæki eins og Johnson&Johnson, General Mills, Kraft Foods og Walt Disney. Engu að síður komu bandarísk stórfyrirtæki ekkert sérstaklega vel út úr þessari könnun: 71% aðspurðra töldu orðspor þeirra annað hvort „ekki gott“ eða „skelfilegt“.

Athygli vekur að fjárfestingarfélagið Berkshire Hathaway, sem Warren Buffet stýrir, náði sjötta í sæti, því líkt og fram kemur í fréttinni starfar fyrirtækið ekki á neytendamarkaði. Fólk verslar ekki við það. Talið er að neytendur líti á Berkshire Hathaway sem öruggt skjól í storminum sem geisar á fjármálamörkuðum. Auk þess  hefur gott orðspor Buffets mikið að segja. Harri Poll er ætlað að finna 60 sýnilegustu fyrirtæki Bandaríkjanna og meta orðspor þeirra. Google komst ekki á blað í þessari könnun fyrir fjórum árum.